Fótbolti

Sparta Rotterdam skoðar son Eiðs Smára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveinn Aron Guðjohnsen er samningsbundinn Val.
Sveinn Aron Guðjohnsen er samningsbundinn Val. Mynd/Valur
Hollenska úrvalsdeildarliðið Sparta Rotterdam hefur boðið Sveini Aroni Guðjohnsen til æfinga hjá félaginu.

Sveinn Aron Guðjohnsen er átján ára sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, fyrrum leikmanns Chelsea og Barcelona og markahæsta leikmanns íslenska landsliðsins frá upphafi.

Sveinn Aron byrjaði tímabilið með HK í 1. deildinni en skipti síðan yfir í Val um mitt sumar. Sveinn Aron er samningsbundinn Val en hann spilaði sex leiki með liðinu í Pepsi-deildinni síðasta sumar.

Sveinn Aron náði ekki að skora í Pepsi-deildinni en hann var með 5 mörk í 10 leikjum með HK í Inkasso-deildinni.

Sveinn Aron mun æfa í eina viku með Sparta Rotterdam en þetta kemur fram í frétt á heimasíðu hollenska blaðsins Dagblad van het Noorden.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hollenskt lið skoðar Svein Aron því hann fór til FC Groningen í fyrra.

Eiður Smári Guðjohnsen steig sín fyrstu spor sem atvinnumaður í Hollandi en hann fór frá Val til PSV Eindhoven eftir 1994 tímabilið.

Sparta Rotterdam er eins og er í sjöunda sæti hollensku deildarinnar eftir 12 leiki en liðið hefur náð í 16 stig og er þrettán stigum á eftir toppliði Feyenoord.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×