Hefur félagið sent ráðherra bréf þar sem þess er krafist að félagið fái sæti í samráðshópnum. Tilkynnt var um skipan hópsins í dag og voru ASÍ eða BSRB, Bændasamtök Íslands sem fær tvö fulltrúa, Neytendasamtökin, Samtök afurðarstöða og Samtök atvinnulífsins beðin um að tilnefna fulltrúa í starfshópinn.
Í bréfinu er vísað til yfirlýsinga Jóns Gunnarssonar þar sem hann sagði að boðað yrði til þjóðarsamtals um heilbrigðan og sterkan íslenskan landbúnað til lengri tíma og að efnt yrði til víðtæks samráðs meðal neytenda, aðila vinnumarkaðarins og atvinnulífsins. Í bréfinu segir einnig að í samtölum Jóns við félagið hafi ítrekað komið fram að gert yrði ráð fyrir því að Félag atvinnurekenda myndi eiga aðild að samráðshópnum.

Bendir félagið á að samkvæmt 87. grein búvörulaga sé félagið lögbundinn umsagnaraðili um tillögur ráðgjafanefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara ásamt Bændasamtökunum, Neytendasamtökunum og Samtökum verzlunar og þjónustu, sem eru aðildarsamtök Samtaka atvinnulífsins. Það liggi því fyrir að allir lögbundnir umsagnaraðilar samkvæmt búvörulögum munu eiga sæti í starfshópnum, nema Félag atvinnurekenda.
„Í þessu ljósi veldur skipan starfshópsins Félagi atvinnurekenda verulegum vonbrigðum og getur félagið ekki komizt að annarri niðurstöðu en þeirri að loforðið um þjóðarsamtal hafi verið svikið,“ segir í bréfinu.
Félag atvinnurekenda á enga aðild að Samtökum atvinnulífsins og gætir hagsmuna fyrirtækja sem flest hver standa utan þeirra samtaka. Telur félagið að það geti ekki talist góð stjórnsýsla að „halda mikilvægum hagsmunaaðila þannig utan við samráð, sem átti að stuðla að því að sem flest sjónarmið yrðu leidd saman.“
Þá segir í bréfinu að ljóst séð að verði hópurinn skipaður líkt og tillaga ráðherra gerir ráð fyrir muni ríkið og landbúnaðurinn eiga meirihluta í hópnum.
„Sú gagnrýni, sem sett var fram af hálfu FA og margra annarra hagsmunasamtaka – og meirihluti atvinnuveganefndar tók mark á – var einmitt að ekki gengi að ríkið og landbúnaðurinn véluðu ein um mál sem varðaði jafnmikla fjármuni og jafnvíðtæka hagsmuni. Í þessu ljósi fer Félag atvinnurekenda fram á það við ráðherra að hann endurskoði ákvörðun sína um skipan starfshópsins,“ segir í bréfi félagsins til ráðherra.