Ísland leikur við Úsbekistan í lokaleik í Chongqing í Kína og hefst leikurinn klukkan 16.00 að kínverskum tíma eða klukkan 8.00 að íslenskum tíma.
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska liðsins, hefur tilkynnt byrjunarliðið sitt og gerir áfram fjölmargar breytingar á byrjunarliðinu.
Stjörnukonan Berglind Hrund Jónasdóttir er í markinu og spilar sinn fyrsta A-landsleik. Hólmfríður Magnúsdóttir spilar sem bakvörður og Dagný Brynjarsdóttir er með fyrirliðabandið í fjarveru Margrétar Láru Viðarsdóttur og Söru Bjarkar Gunnarsdóttur.
Ísland er með eitt stig á mótinu eftir að hafa gert 2-2 jafntefli við Kína í fyrsta leik en tapað svo 1-0 fyrir Danmörku. Íslensku stelpurnar stóðu sig mjög vel á móti heimakonum en áttu ekki eins góðan leik á móti þeim dönsku.
Úsbekistan er stigalaust á mótinu en liðið hefur sýnt góða frammistöðu í leikjum sínum gegn Kína og Danmörku. Sigur gæti tryggir Íslandi annað eða þriðja sæti mótsins.
Byrjunarlið íslenska liðsins á móti Úsbekistan er svona:
Markvörður: Berglind Hrund Jónasdóttir.
Vörnin: Hólmfríður Magnúsdóttir - Anna Björk Kristjánsdóttir - Sif Atladóttir - Rakel Hönnudóttir.
Miðjan: Fanndís Friðriksdóttir - Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir - Dóra María Lárusdóttir - Dagný Brynjarsdóttir (Fyrirliði) - Svava Rós Guðmundsdóttir.
Sókn: Berglind Björg Þorvaldsdóttir.
