Skoðun

Forgangsröðum í þágu menntunar

Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar
Síðastliðna daga hefur mikið verið rætt um bága stöðu háskólanna undir yfirskriftinni Háskólar í hættu. Meðal þess sem fram hefur komið er að framlög á hvern nemanda í íslenskum háskólum er um það bil helmingi lægri en framlög á hvern nemanda í sambærilegum háskólum á Norðurlöndunum. Þessi munur gerir það að verkum að íslensku skólarnir ná ekki að endurnýja tæki og þróa kennsluhætti jafn hratt og hægt er að gera annars staðar á Norðurlöndunum. Það er óásættanlegt því ábyrgð háskólanna felst m.a. í því að undirbúa nemendur sem hefja störf á síbreytilegum atvinnumarkaði að námi loknu, þeir nemendur þurfa að hafa aðgang að nýjasta tæknibúnaði og þekkja nýjustu vísindi hvert á sínu sviði.

Skortur á fjármunum veldur því að kennt er í stærri hópum og kennarar fá minna svigrúm til þess að þróa kennsluhætti og það námsframboð sem boðið er upp á. Allt bitnar þetta á gæðum námsins sem íslenskir háskólar bjóða upp á.

Það er einnig ákaflega sorglegt að sama umræða á sér stað á vettvangi framhalds- og grunnskólanna, breytingar á starfsmati og hagræðingaraðgerðir í kjölfar kreppunar hafa orðið til þess að viðvarandi skortur er á fjármagni í grunn- og framhaldsskólum, tæki eru ekki endurnýjuð, stoðþjónustu við nemendur er ábótavant og hætt er við því að við þessar aðstæður verði þróun nýrra námsaðferða ófullnægjandi.

Það hefur lengi ríkt þverpólítísk sátt um að fjárfesting í menntakerfinu sé jákvæð fjárfesting fyrir samfélagið sem borgar sig margfalt til baka. Ég skora því á alla flokka sem nú eru í framboði til Alþingis að heita því að gera markvisst átak eftir kosningar í því að efla öll menntakerfi landsins. Setja þarf fram aðgerðaráætlun og gera ráð fyrir auknum fjármunum þar sem þeirra er mest þörf. Skólakerfi á Íslandi ætti að byggja á einstaklingsmiðaðri nálgun og fjölbreyttu námsúrvali þar sem nemendur hafa tækifæri til að þroskast og njóta framúrskarandi menntunar á þeim sviðum sem þeir kjósa.






Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×