Innlent

Eru ekki í stjórnarmyndunarviðræðum

Þorgeir Helgason skrifar
Einar Brynjólfsson, Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy á fundinum.
Einar Brynjólfsson, Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy á fundinum. Vísir/Friðrik Þór
„Við vorum ekki að boða til stjórnarmyndunarviðræðna enda höfum við ekki umboð til þess í augnablikinu. Núna erum við bara í samstarfsviðræðum,“ segir Smári McCarthy, einn af stofnendum Pírata og oddviti þeirra í Suðurkjördæmi.

Eftir blaðamannafund Pírata síðasta sunnudag sendi kjörstjórn Pírata fréttatilkynningu á fjölmiðla.

Í tilkynningunni segir að umboðsmenn Pírata hafi á fundinum tilkynnt hvernig flokkurinn hygðist standa að stjórnar­mynd­unarviðræðum fyrir komandi alþingiskosningar. Í kjölfarið var myndband af fundinum birt á vefsíðu Pírata undir fyrirsögninni „Píratar boða til stjórnarmyndunarviðræðna“.

Fyrirsögninni á fundinum hefur nú verið breytt á vefsíðu Pírata en nú er fundurinn kallaður „Píratar boða til formlegra viðræðna um samstarf“.

Í gær deildi Smári færslu á Face­book þar sem hann áréttar að tilefni fundarins hafi ekki verið að boða til stjórnarmyndunarviðræðna. Birgitta Jónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður, hefur til að mynda deilt færslunni.

„Það er kannski smá ósamræmi í þessu og við skiljum af hverju það gætir misskilnings um þetta en efni fundarins er það sem skiptir mestu máli. Við lítum á fundinn sem mögulega fyrsta stig stjórnarmyndunarviðræðna en eins og staðan er í dag er aðeins um samstarfsviðræður að ræða, segir Smári.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×