Hagsmunaaðilar í laxveiði undir forystu Orra Vigfússonar, formanns Verndarsjóðs villtra laxastofna, segjast ætla að beita öllum leiðum til að stöðva laxeldi í sjókvíum. Orri sagði á Stöð 2 í gær að eitthundrað milljarða króna veiðihlunnindi væru í hættu.
Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva, segir greinina lengi hafa setið undir árásum Orra og félaga, og áróðri sem á köflum hafi jaðrað við atvinnuróg, því fullyrðingar hans hafi að miklu leyti verið hraktar.
„En ég fagna reyndar því að Orri kom nú frekar grímulaus til dyra í gær og sýndi okkur fram á það að það eru náttúrlega fyrst og fremst fjárhagslegir hagsmunir sem drífa hann og hans menn áfram. Ég held að það sé gott fyrir umræðuna að við áttum okkur á því að það er ekki náttúrvernd heldur eru þeir hræddir um peningana sína,“ segir Höskuldur í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
Hann segir Orra hafa talað um úrkynjaðan og kynbreyttan lax.
„Sem er rangt því eldislax, eins og önnur eldisdýr, þar með talið kjúklingar, svín og naut, eru kynbætt til eldis. Það er reginmunur þar á.“
Höskuldur bendir á að einungis sé heimilt að ala lax í sjó á 20 prósentum hafsvæða við Ísland.
„Við eldismenn erum í löglegri starfsemi með umhverfisvæna uppbyggingu á svæðum þar sem í raun og veru einsleitt atvinnulíf var áður. Regluverkið um fiskeldið er gríðarstrangt. Það eru búnaðarstaðlar á öllum búnaði og þessi svæðisskipting er einsdæmi í heiminum.“
Vegna fullyrðinga um gríðarmikla saurmengun frá eldiskvíum bendir Höskuldur á að áður en eldissvæði sé skilgreint meti Hafrannsóknastofnun burðarþol þess til að taka við úrganginum og til að hreinsa sig á tilskildum hvíldartíma. Þetta sé auk þess mjög vel vaktað af opinberum aðilum.
Þá séu eldisleyfi gefin út til tíu ára og endurskoðuð á fjögurra ára fresti þannig að fyrirtækin þurfa að standa sig og starfa í sátt við náttúruna.

„Það er alveg hafið yfir allan vafa að það mun alltaf einhver fiskur sleppa úr sjókvíum og við reynum ekki að halda öðru fram. Við sjáum hins vegar að eftir að búnaðarstaðlarnir voru innleiddir á Íslandi þá eru tilvikin sem um ræðir örfá og ekkert þeirra hefur skaðað umhverfið.
Þessi regnbogi, sem núna er alinn við Ísland í sjókvíum, hann er í raun og veru í búnaði sem er á útleið. Þannig að enginn lax verður í öðrum búnaði en þeim sem uppfyllir staðalinn.“
-En eru þá þessar áhyggjur þeirra stórlega ýktar að ykkar mati?
„Ég skil alveg að þeir hafi áhyggjur af ákveðnum þáttum. En við gerum kröfu til að umræðan sé málefnaleg,“ segir Höskuldur Steinarsson.