Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins tilkynnti þingflokknum ekki um framboð sitt til formanns á þingflokksfundinum sem haldinn var í dag. Vísir greindi frá framboði Sigurðar Inga fyrr í kvöld en boðað var til þingflokksfundar hjá Framsókn í dag með mjög skömmum fyrirvara.
Fundurinn hófst um klukkan 13 og stóð til klukkan 16:30. Sigurður Ingi fór þó af fundinum um tveimur tímum áður en honum lauk og gaf ekki kost á viðtali. Eftir fundinn náðu fréttamenn tali af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni flokksins sem kvaðst meta stöðu sína innan flokksins góða.
Fréttastofa náði tali af Sigurði Inga í kvöld skömmu og sagðist hann telja óheppilegt fyrir flokkinn að halda áfram í því andrúmi sem hann er nú.
„Ég held að það sé best að fá skýra lausn og niðurstöðu í málið á flokksþingi hvernig sem hún verður og þá hefur sá sem kosinn er formaður óskorað umboð flokksmanna til þess að ganga til kosninga. Ég held að það sé besta leiðin.“
