Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fer fram í Hofi á Akureyri í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins setur fundinn klukkan 12.30 en búist er við að fundurinn standi til klukkan 17. Sigmundur mun jafnframt halda ræðu á fundinum sem mun án efa vekja athygli en klukkan 16 verður tekin fyrir tillaga um boðun flokksþings sem fastlega er búist við að haldið verði fyrir þingkosningar sem verða í lok október. Í liðnum mánuði samþykkti meirihluti kjördæmisþinga flokksins að boða til flokksþing fyrir kosningar en samkvæmt reglum flokksins þarf að boða til flokksþings ef meirihluti kjördæmisþinganna fer fram á það.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verða bornar upp tvær tillögur að dagsetningu flokksþings, annars vegar 1. október og hins vegar 8. október. Á flokksþingi er forysta flokksins kosin en það má segja að nokkur styr hafi staðið um Sigmund Davíð í kjölfar Panama-lekans og afsagnar hans sem forsætisráðherra. Ekki verður þó af öðru ráðið en að hann hyggist bjóða sig fram til formanns á nýjan leik og enn hefur enginn lýst yfir framboði gegn honum.
Eygló Harðardóttir, félags-og húsnæðismálaráðherra, hefur helst verið nefnd sem mögulegur mótframbjóðandi Sigmundar til formanns þar sem hún hefur ekkert gefið út um það hvort hún myndi fara gegn sitjandi formanni eða ekki. Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður flokksins og forsætisráðherra hefur hins vegar útilokað að fara fram gegn sitjandi formanni og það hafa sömuleiðis Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra einnig gert.
Það er einnig nóg um að vera hjá Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni en prófkjör Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi fara fram í dag. Þá lýkur flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík, Suðvesturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi klukkan 17 en það hófst á fimmtudag. Úrslitin ættu að liggja fyrir um klukkan 18 í kvöld en fyrstu tölur úr prófkjörum Sjálfstæðisflokksins verða kynntar klukkan 19.

