Íslenski boltinn

Ryder: Okkur líður öllum skelfilega

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, var ekki ánægður með sína menn í kvöld.
Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, var ekki ánægður með sína menn í kvöld. Vísir/Ernir
„Við vorum aðeins sex mínútum frá þessu og miðað við þau færi sem við sköpuðum okkur hefðum við átt að vinna hér í kvöld,“ segir sársvekktur Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, eftir leikinn.

Þróttur gerði 1-1 jafntefli við Víking Ó. í kvöld og er liðið fallið. Aðeins kraftaverk getur bjargað þeim.

„Við erum bara allir miður okkar eftir þessi úrslit. Við fengum nokkur tækifæri til að stöðva sókn Víkinga þegar þeir skoruðu en það bara gekk ekki eftir.“

Þróttarar hafa fengið ótal mörk á sig á síðustu tíu mínútunum í sínum leikjum í sumar og hefur oft verið rætt um formleysi leikmanna liðsins. Það gerðist enn einu sinni í kvöld þegar Pape skoraði fyrir Víkinga á 85. mínútu leiksins.

„Það er erfitt að koma auga á það af hverju þetta gerist. Mér fannst þeir ekkert ógna okkur í leiknum í kvöld og við áttum ekki að fá á okkur þetta mark. Ég held að þetta sé bara einbeitingarskortur, það getur ekki verið neitt annað.“

Þróttarar eru í raun fallnir niður í 1.deildina eftir úrslit kvöldsins.

„Ég hef aldrei gefist upp fyrr en hlutirnir eru í raun stærðfræðilega útilokaðir en þetta er búið að þessu sinni, við erum fallnir. Það líður öllum skelfilega.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×