Innlent

Verndaráætlun fyrir fornleifar á Laugarnestanga staðfest

Birta Svavarsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Kristín Huld Sigurðardótir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, handsala samninginn að lokinni undirskrift.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Kristín Huld Sigurðardótir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, handsala samninginn að lokinni undirskrift. Reykjavíkurborg
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur og Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, undirrituðu í dag staðfestingu á verndaráætlun fyrir minjasvæðið á Laugarnestanga. Flestar tengjast minjarnar búsetu á Laugarnesbænum, en einnig er að finna þar minjar tengdar tíð embættismannabústaðar og holdveikraspítala á staðnum, auk stríðsminja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg nú í dag.

Í tilkynningunni segir, „tilgangur verndaráætlunar fyrir minjasvæðið er að tryggja verndun fornleifanna á sem bestan hátt og veita leiðsögn um samspil verndunar og nýtingar, skipulags og reksturs.“

„Flestar tengjast minjarnar búsetu á Laugarnesbænum auk hjáleigu og kirkju, en einnig er að finna minjar tengdar tíð embættismannabústaðar og holdsveikraspítala á staðnum auk stríðsminja. Tvennar minjar, bæjarhóll Laugarnesbæjarins og kirkjugarður, eru friðlýstar og er Laugarnes einn af sjö stöðum í Reykjavík þar sem friðlýstar fornleifar er að finna.“

Á minjasvæðinu á Laugarnestanga er að finna bæði friðlýstar fornleifar og aldursfriðaðar fornleifar, en strangari reglur gilda um þær fyrrnefndu. Allar framkvæmdir innan hundrað metra út frá ystu mörkum friðlýstra fornleifa eru bannaðar án sérstaks leyfis frá Minjastofnun Íslands, en fimmtán metra út frá ystu mörkum aldursfriðaðra fornleifa.

„Minjastofnun ber ábyrgð á minjunum og skal ríkið bera kostnað af viðhaldi friðlýstra fornleifa. Landeigandi skal hins vegar bera kostnað af viðhaldi umhverfis minjanna, hvort sem er friðaðra eða friðlýstra, sem og viðhaldi aldursfriðaðra minja. Verndaráætlun þessi skal endurskoðuð annað hvert ár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×