Ástþór fór mikinn í kappræðum forsetaframbjóðendanna í Speglinum á Rás 1 í gær og sagði Guðna vera frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins en Ástþór hefur haldið því fram að framboð Guðna sé gert út af fólki úr Sjálfstæðisflokknum.
Sjá einnig: Átök í Efstaleiti: Hótuðu að henda Ástþóri úr kappræðum frambjóðenda
Guðni Th. var viðmælandi Harmageddon á X-inu í dag og var spurður af hverju svo margir úr Sjálfstæðisflokknum væru að starfa fyrir framboðið, vísaði Guðni þá til þess að hann væri úr Garðabænum, einu þekktasta vígi Sjálfstæðismanna og að hann bæði vini sína ekki um flokksskírteini.
„Framboð mitt bar frekar brátt að. Þegar ég ákvað að láta slag standa vissi ég, eins og allir sem fara í framboð, að það þarf skipulag og batterí í kringum þetta. Þá leitaði ég til fólks sem ég þekki,“ sagði Guðni en bæði Friðjón R. Friðjónsson og Þorgerður Anna Arnardóttir, sem starfa fyrir framboðið, eru í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.
„Ég talaði við vin minn Friðjón Friðjónsson, konur okkar eru báðar úr Vesturheimi. Magnús Lyngdal þekki ég úr háskólanum, hann var til í tuskið. Að síðustu er það Þorgerður Anna Arnarsdóttir sem ólst upp á sömu slóðum og ég. Þau þrjú hófu leikinn og svo bættust margir fleiri við og það er fólk sem er utan sem innan flokka,“ segir Guðni sem bendir á að hann hafi ekki tekið þátt í stjórnmálum og aldrei verið skráður í stjórnmálaflokk.
„Fyrir utan það í öllum mínum rannsóknum og skrifum hef ég ekki verið að hlífa Sjálfstæðisflokknum. Ég skrifaði þannig um sögu Sjálfstæðisflokksins í ævissögu Gunnars Thoroddsens að sumum þótti hart vegið að þeim flokki,“ sagði Guðni sem segist ekki hafa og ætla að spyrja um flokksskírteini þeirra sem eru í framboði til forseta.
„Hér er fólk að velja ákveðinn einstakling til að styðja og þannig á það að vera í forsetakjöri.
Hlusta má á allt viðtalið við Guðna Th. í spilaranum hér fyrir neðan.