Fótbolti

Afi hans var stjóri Swansea og strákurinn vildi endilega hitta Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og Clement Davies.
Gylfi Þór Sigurðsson og Clement Davies. Mynd/KSÍ/Hilmar Þór
Frábær stemning var á opnu æfingunni hjá íslenska fótboltalandsliðinu í Annecy í dag og íslensku strákarnir hittu unga stuðningsmenn liðsins eftir hana og gáfu eiginhandaráritanir.

Það voru ekki bara íslenskir krakkar sem mættu því þar var líka Clement Davies sem er ungur aðdáandi Gylfa Þórs Sigurðssonar, leikmanns Swansea á Englandi. Clement býr ásamt foreldrum sínum í Frakklandi en pabbi hans er frá Wales en mamma hans er frönsk. Knattspyrnusamband Íslands sagði frá þessari skemmtilegu heimsókn á heimasíðu sinni.

Það var draumur stráksins að fá að hitta Gylfa á æfingunni en afi stráksins, Glyn Davies, var leikmaður Swansea árin 1962-1964 en hann var svo stjóri liðsins árið 1965-1966. Clement mætti í Swansea treyju og fékk mynd af sér með Gylfa ásamt eiginhandaráritun.

Gylfi tók að sjálfsögðu vel á móti stráknum og gaf honum eiginhandaráritun en Clement var í Swansea-treyjunni innan um alla íslensku landsliðsbúningana.

Það er full ástæða fyrir stuðningsmenn Swansea að halda upp á Gylfa Þór Sigurðsson sem átti flott tímabil og var án efa besti leikmaður liðsins eftir áramót.

Gylfi skoraði alls ellefu mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar af níu þeirra á árinu 2016. Það var bara André Ayew sem skoraði meira en hann og öll þessi mörk var íslenski landsliðsmaðurinn að skora af miðjunni.

Hilmar Þór Guðmundsson tók þessar myndir af Gylfa hér fyrir neðan og birti á fésbókarsíðu KSÍ.



Mynd/KSÍ/Hilmar Þór
Mynd/KSÍ/Hilmar Þór
Mynd/KSÍ/Hilmar Þór



Fleiri fréttir

Sjá meira


×