Aníta Hinriksdóttir er meðal þeirra sextán íslenskra keppenda sem keppa á fyrsta Smáþjóðameistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fer fram á Möltu í næsta mánuði.
Frjálsíþróttasambandið hefur valið þessa sextán íþróttamenn í ferðina en keppnin fer öll fram 11. júní næstkomandi. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu sambandsins.
Aníta Hinriksdóttir er eini keppendinn frá Íslandi sem hefur þegar unnið sér sæti á Ólympíuleikunum í Ríó sem fer fram í ágústmánuði. Ásdís Hjálmsdóttir hefur einnig tryggt sér þátttökurétt á leikunum en hún verður ekki með á Möltu.
Mótið er fyrsta stóra verkefni landsliðs Íslands í frjálsíþróttum á þessu sumri en framundan eru Evrópumeistaramót og Ólympíuleikar auk margra unglingaverkefna þar á meðal Norðurlandameistaramót 19 ára og yngri sem fram fer í Hafnarfirði.
Á Smáþjóðameistaramótinu keppa, auk Íslands, lið smáþjóðanna, Andorra, Kýpur, Möltu, Lúxemborg, Liechtenstein, San Marínó og Mónakó, en einnig taka lið frá Albaníu, Armeníu, Aserbaísjan, Bosníu, Georgíu, Kósovó, Moldavíu og Makedóníu þátt í mótinu.
Það verður því gríðarlega verðug keppni sem íslenska liðið fær og spennandi að sjá hvort að einhverjir ná lágmörkum á Evrópumeistaramótið í Amsterdam.
Þau sem hafa verið valdir til að keppa fyrir Íslands hönd á Smáþjóðameistaramótinu eru:
Konur:
Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir: 100 m, 200 m, 1000 m boðhlaup
Þórdís Eva Steinsdóttir: 400 m, 1000 m boðhlaup
Arna Stefanía Guðmundsdóttir: 100 gr., 400 m, 1000 m boðhlaup
Aníta Hinriksdóttir: 800 m, 1000 m boðhlaup
Hafdís Sigurðardóttir: Langstökk, 100 m, 1000 m boðhlaup
Vigdís Jónsdóttir: Sleggjukast
Karlar:
Kolbeinn Höður Gunnarsson: 100 m, 400 m, 1000 m boðhlaup
Ari Bragi Kárason: 100 m, 200 m, 1000 m boðhlaup
Ívar Kristinn Jasonarson: 400 m, 1000 m boðhlaup
Trausti Stefánsson: 200 m, 1000 m boðhlaup
Kristinn Þór Kristinsson: 800 m, 1000 m boðhlaup
Hlynur Andrésson: 3000 m
Kristinn Torfason: Langstökk
Stefán Velemir: Kúluvarp
Óðinn Björn Þorsteinsson: Kúluvarp
Guðni Valur Guðnason: Kringlukast
