Erlent

Dómari samþykkti nálgunarbann

Birta Björnsdóttir skrifar

Síðastliðinn mánudag sótti leikkonan Amber Heard um skilnað við eiginmann sinn, leikarann Johnny Depp.



Dómari samþykkti svo í gær nálgunarbann sem Heard fór fram á, en hún segir Depp hafa beitt sig ofbeldi.



Heard segir eiginmann sinn hafa gegnið í skrokk á sér síðastliðið laugardagskvöld, hent farsíma í sig, rifið í hár sitt, öskrað á sig og lamið. Hún framvísaði ljósmynd af sér þar sem glöggt má sjá marbletti í anditi hennar, máli sínu til stuðnings.



Í vitnisburði sínum sagði Heard þetta ekki í fyrsta skiptið sem Depp hafi beitt hana ofbeldi. Hún sagðist óttast frekari árásir og hótanir af hans hálfu og fór því fram á nálgunarbann.



Lögmaður Depp segir leikarann fallast á óskir Heard varðandi nálgunarbannið en tjáði sig ekki að öðru leyti um ásakanirnar. Depp er nú staddur á tónleikaferðalagi í Portúgal með hljómsveit sinni, Hollywood Vampires.



Þau Heard og Depp gengu í hjónaband fyrir fimmtán mánuðum síðan en þau kynntust árið 2011 við tökur á kvikmyndinni The Rum Diary.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×