
Sjá einnig: Ólafur Ragnar tvístígandi um framboð: Fór fögrum orðum um Davíð Oddsson
„Þá hefði það orðið eftirmælin hans“
„Ég held að hann bakki. Hann gæti beðið eftir fyrstu könnun en það gæti tafist út af Davíð. Menn voru örugglega byrjaðir á könnun sem þarf að byrja aftur á út af Davíð,“ segir Andrés en Davíð tilkynnti um framboð sitt í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Andrés segir Ólaf Ragnar vera örugglega kominn langt með að hætta og hafi verið að leita að annarri ástæðu til að draga framboð sitt til baka en fregnir af aflandseignatengslum eiginkonu sinnar, Dorrit Moussaieff.
„Hann gat bara ekki hætt í tengslum við þessi aflandsskjalamál því þá hefði það orðið eftirmælin hans. Hann er búinn að vera svo lengi og maður sér að hann tiltekur að það sé komnir sterkir frambjóðendur þó honum sé ekkert sérstaklega vel við hvorugan. Þannig að ég held að hann sé að leita að annarri ástæðu og sé örugglega kominn langt með að hætta við,“ segir Andrés.
Framboð Davíðs lengi í bræðingi
Það vakti töluverða athygli hve fögrum orðum þeir Davíð og Ólafur fóru um hvorn annan í viðtölum í dag en Andrés segir það ekki benda til þess að þeir séu búnir að gera samkomulag sín á milli að Davíð taki við kyndlinum af forsetanum í ljósi veikrar stöðu Ólafs Ragnars.

Telur Guðna Th. hafa svarað vel fyrir harða gagnrýni
Hann segir mikinn meðbyr með Guðna Th. Jóhannessyni. Guðni hefur farið mikinn í viðtölum eftir að hann tilkynnti formlega um framboð sitt á uppstigningardag og hefur svarað nokkuð afdráttarlaust gagnrýni sem hann hefur fengið á sig. Andrés segir Guðna hafa leyst vel úr því.
Sjá einnig: Guðni Th. um meintar árásir gegn öðrum frambjóðendum: „Ég er þá í öðru sæti á eftir meistaranum“

Gæti skapað pláss fyrir Andra Snæ
Hann segir þessar vendingar mögulega geta skapað pláss fyrir Andra Snæ Magnason sem mældist með talsvert fylgi en dalaði töluvert þegar Guðni Th. bættist inn í myndina. „Það gæti myndast einhver bylgja þegar einmitt Guðni er að reyna að höfða svo vítt og breytt. Hann gæti skapað pláss fyrir Andra en varla nóg til að Andri nái að sigra. En maður skyldi aldrei segja aldrei. Andri er búinn að vera í svolitlum mótbyr og hefur ekki náð flugi en hann mun væntanlega bíða þar til kemur að sjónvarpskappræðum áður en hann ákveður sig hvort hann fer alla leið.“