Valur vann sigur á Stjörnunni, 3-2, í toppbaráttu riðils eitt í Lengjubikar karla í gærkvöldi en leikurinn var mikil skemmtun.
Með sigri eða jafntefli gat Stjarnan komið sér í toppsæti riðilsins og sent Val úr keppni í þriðja sæti og öfugt. Sigur Vals hefði komið Valsmönnum á toppinn en Stjarnan hefði þá verið eftir í þriðja sæti sem varð raunin.
Hörður Árnason kom Stjörnunni yfir á 7. mínútu áður en nýr danskur framherji Vals, Nicolaj Hansen, jafnaði metin á 28. mínútu. Kristinn Freyr Sigurðsson kom Val í 2-1 aðeins tveimur mínútum síðar og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Þegar allt stefndi í 2-1 sigur Vals jafnaði Ólafur Karl Finsen fyrir Stjörnuna í uppbótartíma og Valsmenn í vondum málum, en Hlíðarendapiltar tóku miðju, óðu upp að marki Stjörnunnar og tryggðu sér sigur með marki Tómasar Óla Garðarssonar, 3-2.
Leikurinn var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 en allir innbyrðis leikir Pepsi-deildarliðanna í Lengjubikarnum voru í beinni útsendingu í mars.
Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.
