Kanadíska olíufélagið Íþaka hefur samið við norskt olíurannsóknafyrirtæki um að senda leitarleiðangur á Drekasvæðið í sumarbyrjun. Þar með verða báðir sérleyfishóparnir komnir af stað í olíuleitina.
Fyrsti olíuleitarleiðangurinn á vegum sérleyfishafa lagði upp á frá Reyðarfirði í byrjun septembermánaðar í fyrra. Þá sigldi rannsóknarskip ásamt aðstoðarskipi í fjögurra vikna leiðangur en tilgangurinn var að leita merkja um olíu á Drekasvæðinu með bergmálsmælingum.

Drekasvæðið er djúpt norðaustur af Langanesi, tveir hópar hafa þar sérleyfi til olíuleitar, en leiðangurinn í haust var á vegum hópsins sem kínverska ríkisolíufélagið CNOOC fer fyrir.
En nú er hinn hópurinn einnig að fara af stað, hópur undir forystu kanadíska félagsins Ithaca, en sérleyfi hans er norðar á svæðinu og nær alveg að lögsögumörkunum við Jan Mayen. Norska ríkisolíufélagið Petoro er fjórðungshluthafi í báðum leyfum en íslenskir aðilar, báðir á vegum Eykons Energy, eru einnig meðeigendur.
Búist er við að rannsóknarskipið Harrier Explorer, í eigu norska félagsins Seabird Exploration, verði sent á Drekasvæðið fyrri hluta sumars, en Seabird tilkynnti nýlega að það hefði tekið að sér að gera þar tvívíðar bergmálsmælingar. Fram kom í tilkynningunni að gert sé ráð fyrir að leiðangurinn taki tvær til þrjár vikur og að honum ljúki fyrir lok júnímánaðar.
Ithaca var raunar ekki nefnt í tilkynningunni en ljóst má vera að kanadíska félagið er kaupandi rannsóknargagnanna, vegna skuldbindinga sem sérleyfið felur í sér. Sérleyfið, sem íslensk stjórnvöld veittu, felur nefnilega ekki aðeins í sér rétt til að leita að olíu og vinna hana, heldur einnig skyldu til að framkvæma ákveðnar grunnrannsóknir og afhenda íslenskum stjórnvöldum niðurstöðurnar fyrir tilskilin tímamörk, í tilviki Ithaca fyrir næstu áramót. Skuldbindingarnar knýja kanadíska félagið því til standa fyrir mörghundruð milljóna króna leiðangri í sumar til að rannsaka Drekasvæðið.
