BDSM félagið á Íslandi fékk aðild að Samtökunum 78 á aðalfundi samtakanna í dag. Leynileg atkvæðagreiðsla fór fram á meðal félagsmanna á fundinum og var félagið samþykkt með 37 atkvæðum gegn 31.
Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtakanna 78, sagði í samtali við Vísi í dag að umsókn félagsins hafi verið vel kynnt fyrir félagsmönnum á kynningarfundi sem fram fór fyrir helgi. Félagsmenn hafi því verið nokkuð vel upplýstir en að nokkuð skiptar skoðanir hafi verið á málinu.
Þá sagði Magnús Hákonarson, formaður BDSM á Íslandi, í samtali við Fréttablaðið að aðild BDSM-félaga að hinsegin hópum sé stórflókið og rammpólitískt mál. Fræðimenn séu ekki sammála um hvað sé kynhneigð og hversu mikið hún orsakist af líffræðilegum þáttum eða félagsmótun.
