Enski boltinn

Totti: Eina eftirsjáin að fara ekki til Real Madrid

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Francesco Totti, leikmaður Roma, sér aðeins eftir einum hlut á sínum ferli og það er að hafa aldrei spilað fyrir Real Madrid.

Totti kom inn á þegar fimmtán mínútur voru eftir í leik Real Madrid og Roma í Meistaradeildinni í gærkvöldi og fékk standandi lófatak úr stúkunni frá stuðningsmönnum Real Madrid.

Ítalski framherjinn hefur spilað allan sinn 24 ára feril með Roma og er goðsögn í lifanda lífi þar á bæ. Hann hefur aftur á móti verið úti í kuldanum hjá Luciano Spalletti, þjálfara liðsins, að undanförnu fyrir að gagnrýna hann opinberlega.

„Santiago Bernabéu er magnaður völlur. Eina eftirsjáin mín er að spila ekki fyrir Real Madrid,“ sagði Totti við blaðamenn eftir leikinn.

„Það var tilfinningaþrungið fyrir mig að fá svona móttökur. Ég mun eiga þessa minningu lengi,“ sagði Francesco Totti.

Totti gat ekki komið í veg fyrir að hans menn féllu úr leik í Meistaradeildinni, en Real Madrid vann 2-0 sigur og samanlagðan 4-0 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×