Skoðun

Styðjum endurreisn Kára

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Undirskriftasöfnunin á Endurreisn.is er ákall um betra heilbrigðiskerfi. Það verður því aðeins betra að ríkið verji auknu fé til þess. Frá 2008 hefur þróunin verið í öfuga átt. Dregið hefur verið úr fjárveitingum. Samkvæmt yfirliti útgjalda velferðarráðuneytisins 2008–2015 dags. í júní 2015 voru rekstrarútgjöld heilbrigðisráðuneytisins 6% lægri árið 2015 en þau voru 2008 reiknuð á föstu verðlagi. Öll árin þar á milli voru útgjöldin lægri en 2008, allt niður í 9% lægri árið 2012. Samdrátturinn í útgjöldum til almennrar sjúkrahúsþjónustu árið 2015 var 13% frá 2008 og 10% til sérstæðrar sjúkrahúsþjónustu.

Rétt er að skoða líka útgjöldin á föstu verðlagi per mann. Þá er tekið tillit til íbúafjöldaþróunar á tímabilinu 2008–2015. Í skýrslu velferðarráðuneytisins kemur fram að útgjöld ríkisins hafi verið 473,7 þúsund kr./mann árið 2008 en 429,4 þúsund kr./mann árið 2015. Lækkunin er rúmar 44 þúsund kr/mann eða 9%. Tölur velferðarráðuneytisins staðfesta að dregið hefur verið úr útgjöldum frá 2008. Þetta er hlutur ríkisins og þá á eftir að skoða þróunina á hlut sjúklinga sem hafa greitt beint um 17–20% af heildarútgjöldunum.

Undirskriftasöfnunin sem Kári Stefánsson hratt af stað er ekki bara ákall um meira opinbert fé til heilbrigðismála. Hún er líka ákall um breytt hugarfar til málaflokksins. Allt frá sameiningu spítalanna á höfuðborgarsvæðinu hefur sjónarhorn ríkisins fyrst og fremst verið rekstrarlegt. Allt frá fjárlögum 2004 hefur þess verið krafist að sameiningin skilaði beinum fjárhagslegum sparnaði. Heilbrigðiskerfið hefur verið sett undir sama hatt og venjulegur atvinnurekstur. Því hefur verið ákvörðuð fjárveiting og svo á að veita þjónustu sem rúmast innan þess ramma. Of lengi hefur of langt verið gengið í þessa átt.

Þjónustan sem heilbrigðiskerfinu er ætlað að veita eru réttindi einstaklinganna og hlutverk Alþingis og ríkisstjórnar er að útvega nægilegt fé til þess að uppfylla réttindin. Dómurinn sem sagði að rétturinn til túlkaþjónustu heyrnarlausra væri ofar fjárveitingum endurómar inntakið í þjóðarátaki Kára Stefánssonar. Það skulum við öll styðja.




Skoðun

Sjá meira


×