Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, segist ekki búinn að taka afstöðu til þess hvort hann gefi kost á sér að nýju sem formaður flokksins. Þetta kemur fram í löngu bréfi sem hann hefur sent flokksmönnum.
Þar segir hann að flokkurinn þurfi að eiga samtal til að skapa sátt og traust og að hann muni helga sig því verkefni á næstu vikum. „Seinna mun ég svo taka afstöðu til þess hvort ég gefi kost á mér á nýjan leik sem formaður flokksins,“ segir hann í bréfinu.
Fagnar ákvörðun um formannskjör
Árni segist fagna þeirri ákvörðun framkvæmdastjórnar flokksins að efna til landsfundar og formannskjörs í vor. Hann segir að fólki beri saman um að frekari aðgerða sé þörf en að endurnýja umboð flokksforustunnar; skýringa á stöðu flokksins sé ekki bara að leita þar.
Hann segir að ekki verði tekist á við rót vandans með mannfórn.
„Sjálfur held ég að það skipti í sjálfu sér engu máli hver verður formaður Samfylkingarinnar ef Samfylkingin horfist ekki í augu við sjálfa sig og hvernig hún kemur fram og nálgast fólkið í landinu. Við tökum ekki á rót vandans með mannfórn, án heiðarlegrar umræðu um orsakir þessarar stöðu,“ skrifar formaðurinn.
Mistök gerð strax árið 2007
Í bréfinu segir Árni Páll að flokkurinn búi við alvarlegan skort á trúverðugleika sem komi í veg fyrir að fólk styðji flokkinn. „Við verðum að viðurkenna það og takast á við það. Öll, ekki bara sum,“ segir hann. Mistök hafi verið gerð strax þegar flokkurinn gekk fyrst í ríkisstjórn árið 2007.
„Við gengum þá inn í valdakerfi hinna gömlu flokka, án þess að gera kröfu um grundvallarbreytingar. Þar með vorum við ófær um að takast á við fjölbreytt hagsmunatengsl peninga og stjórnmála – sem enn eru ráðandi – og þá blindu á hættur sem var ríkjandi í aðdraganda hruns,“ segir hann í bréfinu.
Icesave og ESB vandamál
Í upptalningu segir Árni Páll meðal annars að flokkurinn hafi stutt Icesave samning sem varði ekki ítrustu hagsmuni þjóðarinnar og að aðildarumsóknin að ESB hafi verið byggð á flóknu baktjaldasamkomulagi sem aldrei hélt í stað þess að fá skýrt umboð til viðræðna.
Hann segir að flokkurinn hafi misst af tækifærinu til að axla sameiginlega ábyrgð á mistök og frekar kosið að fórna einstaklingum til að koma öðrum í skjól.
„Ingibjörg Sólrún baðst afsökunar á sínum hlut. Sú afsökunarbeiðni átti að vera okkur fagnaðarefni og tækifæri til að auðvelda flokknum að takast á við mistök í þeirri ríkisstjórn. Í staðinn var sú afsökunarbeiðni nýtt sem syndakvittun fyrir aðra,“ segir hann.
„Flokkurinn tók ekki félagslega ábyrgð á prófkjörum sem hann hafði efnt til, heldur fórnaði Steinunni Valdísi einni. Framgangan í Landsdómsmálinu og fórn Steinunnar Valdísar hafa skilið eftir djúp sár um alla okkar hreyfingu og sáð fræjum efasemda um að við séum samhent sveit sem axli saman félagslega ábyrgð á mistökum sem við gerum saman.“
