Leiðsögumaðurinn Ævar Ómarsson og samstarfsmaður hans voru að koma niður af Sólheimajökli með hóp ferðamanna þegar þeir urðu skyndilega varir við konu sem kallar til þeirra en hún stóð við op á jökulsprungu við framanverðan jökulinn.
Sjá einnig: Fjórir látist af slysförum á tveimur mánuðum: „Stjórnvöld verða að fara að hysja upp um sig buxurnar í þessum málum“
„Við hlaupum bara til og þegar við komum inn í sprunguna sjáum við mann á bólakafi sem var að reyna að klifra aftur upp á ísinn, segir Ævar.“ Segir hann ljóst að maðurinn hafi hætt sér of langt inn til þess að taka mynd með þeim afleiðingum að hann féll ofan í vatnið í gegnum þunnan ís.

Voru ein á ferð uppi á jöklinum
Öryggi ferðamanna hér á landi hefur verið mikið í umræðunni eftir að kínverskur ferðamaður lét lífið í Reynisfjöru í vikunni og hefur Sveinn Kristján Rúnarsson, lögreglustjóri á Hvolsvelli, kallað eftir því að öryggismál á vinsælum ferðamannastöðum verði tekin til endurskoðunar.
Sjá einnig: Áhættugreining í bígerð eftir banaslys
Ævar verður mikið var við að ferðamenn séu einir á ferð á Sólheimajökli og skömmu áður en að maðurinn féll ofan í ísinn höfðu hann og konan verið uppi á jöklinum sjálfum. Var þeim bent á það af leiðsögumönnum að afar hættulegt væri að vera ein á ferð uppi á jöklinum án leiðsagnar og rétts útbúnaðar.
Segir Ævar að ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum hefði maðurinn verið einn á ferð enda vatnið sem hann féll í ískalt.
„Hefði þessi kona ekki verið með honum hefði enginn séð hann. Hann var inn í sprungunni og það er ekkert hljóðbært út úr svona sprungum, segir Ævar. „Hann hefði bara legið þarna og það er spurning hvort að hann hefði getað komið sér sjálfur upp úr vatninu?“