Samkeppniseftirlitið setti þrýsting á Landsbankann, Arion banka og Íslandsbanka að breyta eignarhaldi á kortafyrirtækjum. Þetta segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
amkeppniseftirlitið sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem eftirlitið sagðist ekki hafa sett Landsbankanum bindandi skilyrði varðandi sölu hluta bankans í Borgun.
„Þetta er allt rétt og satt í sjálfu sér,“ segir Steinþór. „Málið er að Samkeppniseftirlitið setti þrýsting á að breyta eignarhaldi þannig að það væri bara einn banki í eigendahóp hvers fyrirtækis. Landsbankinn fann sig í veikri stöðu þar sem hann var í minnihluta í báðum fyrirtækjum.“
Þá segir Steinþór Landsbankann ekki hafa haft sömu aðkomu að stjórnum kortafyrirtækjanna Borgunar og Valitors og meirihlutaeigendurnir, Íslandsbanki í Borgun og Arion banki í Valitor
„Samkvæmt sátt við Samkeppniseftirlitið var okkur ekki heimilt að hafa háða stjórnarmenn. Við máttum ekki vera í samtali við þá stjórnarmenn sem bankarnir tilnefndu á meðan meirihlutaeigendur máttu hafa háða stjórnarmenn,“ segir Steinþór.
Samkeppniseftirlitið hafnaði því í tilkynningu sinni að bankinn hafi haft takmarkað aðgengi að upplýsingum um Borgun. Steinþór segir hins vegar að bankanum hafi ekki fundist hann hafa góða sýn inn í félögin vegna þess að bankinn hafi ekki fengið að hafa háða stjórnarmenn.
