Innlent

Ákveðið fordæmi fyrir samninga ríkisins

Jón Hákon Halldórsson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Grunnur að stöðugleika Bjarni segir samningsdrögin mikinn áfanga.
Grunnur að stöðugleika Bjarni segir samningsdrögin mikinn áfanga. Vísir/Baldur Hrafnkelsson
„Ég vonast til þess að þetta verði grunnur að samningsniðurstöðu sem komi á stöðugleika og friði á vinnumarkaði út árið 2018, það yrði mikill áfangi,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um samningsdrög VR, Flóabandalagsins og LÍV við SA.

„Ég á enn eftir að átta mig á heildaráhrifunum af samningunum og samspili þeirra við aðgerðir stjórnvalda sem kann að reyna á í tengslum við gerð samninganna. Þannig að maður geti glöggvað sig betur á áhrifunum annars vegar fyrir ríkisfjármálin og hins vegar fyrir eftirspurn og þar af leiðandi verðbólgu í framhaldi.“

Hann segir þó að þær tillögur sem eru á borðinu komi ekki til með að setja allt í uppnám eins og útlit var fyrir á tímabili.

Bjarni segir að ríkið gæti í samningum við sína viðsemjendur fylgt að ákveðnu leyti þessu fordæmi.

„Já, að vissu leyti en þær samningaviðræður eru líka á vissan hátt annars eðlis og snúast um aðra þætti. Það er þó ljóst að þessir samningar munu setja einhvern verðbólguþrýsting á hagkerfið og það getur aldrei verið neitt fagnaðarefni. En úr því sem komið var þá sýnist mér að það stefni í mildari niðurstöðu en maður óttaðist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×