Þá mun vinur og æfingafélagi Gunnars, Conor McGregor, keppa um heimsmeistaratitilinn í fjaðurvigt gegn Jose Aldo. Þetta kvöld er það stórt að einnig verður titilbardagi í veltivigtinni, sem er flokkurinn hans Gunna, þar sem meistarinn Robbie Lawler mun mæta Rory McDonald.

Haraldur segir að þó bardagi Gunnars yrði ekki á meðal aðalbardaganna yrði hans bardagi samt líklega í sjónvarpinu þar sem Gunnar sé það hátt skrifaður.
„Ég myndi segja að það væru svona níutíu prósent líkur á því að það verði af þessu. Við erum að undirbúa okkur eins og það verði af þessu. Það kæmi mér mjög á óvart ef þetta gengi ekki upp. Það er samt ekkert vitað um neinn andstæðing heldur,“ segir Haraldur bjartsýnn.
„Ef af þessu verður þá mun Gunnar fara út nokkru áður enda langt ferðalag. Svo vill hann vera vel undirbúinn fyrir hvern þann andstæðing sem hann fær.“