Curver Thoroddsen, Frímann Kjerúlf, eðlisfræðingur og myndlistarmaður, og Kristján Leósson, doktor í rafmagnsverkfræði, hafa þjappað mánaðarlöngum sveiflum og titringi ljósleiðara niður í 40 mínútna tónverk.
„Þetta eru þung hljóð, svona drunur og stöðugur bassi. Gríðarlega flott,“ segir Frímann, sem telur líklegt að enginn hafi áður nýtt ljósleiðara á þennan máta. Tæknin er þó þekkt, því hana notar geimferðastofnunin NASA við að mæla rafsegulsbylgjur út frá iðrum jarðar utan úr geimnum.
Leysi-ljósgeislum var kastað eftir ljósleiðara Mílu frá Vogum á Vatnsleysuströnd í símstöð í Breiðholti. „Í raun má segja að ljósleiðarinn sé ekki hugsaður sem hljóðfærið sjálft heldur hljóðneminn, því umhverfið hafði áhrif á ljósið á leiðinni,“ segir Frímann. „Við ferðalagið kom flökt á ljósið og það sveiflaðist til. Því var svo beint inn í mæli sem nam breytingarnar á ljósinu á leiðinni, sem við svo breyttum í hljóð.“
Hugmyndina fékk Kristján og bar undir Frímann. Þeir fengu Curver til liðs við sig en hann hefur kennt hljóðlist í Listaháskólanum.
Tónverkið verður flutt í Norræna húsinu á Vetrarhátíð 5.–8. febrúar. Bakhjarlar verksins eru Síminn, Háskóli Íslands, Míla og Nýsköpunarsjóður Íslands.
Tónverk úr rafsegulbylgjum ljósleiðara
