„Samos er eyja sem er aðeins sunnar en Lesbos. Þangað koma færri flóttamenn og þar af leiðandi eru færri sjálfboðaliðar þar en hlutfall flóttamanna og sjálfboðaliða á Samos er mun verra en á Lesbos. Lesbos hefur nefnilega orðið nokkurs konar fjölmiðlatilfelli og því blasir það einhvern veginn beinast við öllum sem koma til Grikklands að fara þangað,“ segir Benjamín.
Flóttamenn frá Norður-Afríku fangelsaðir
Nú eru hann og Heiða stödd í Aþenu en þar hafa verið mótmæli síðustu daga vegna þess að grísk yfirvöld hafa í auknum mæli brugðið á það ráð að fangelsa flóttafólk, og þá aðallega þá sem koma frá Marokkó, Túnis, Alsír og Lýbíu. Þá séu Íranir og Pakistanar einnig fangelsaðir og segir Benjamín mikið vonleysi ríkja á meðal þessara flóttamanna sem upplifa að þeir séu ekki velkomnir í Evrópu.

Yfirvöld vilja einangra flóttamennina í búðum á grísku eyjunum
Hann segir gríðarlegum fjölda flóttamanna vísað frá Grikklandi á degi hverjum og þeir séu annað hvort sendir til baka til Tyrklands eða heimalands síns. Þá segir Benjamín þær hugmyndir ógnvekjandi að komið verði upp búðum á grísku eyjunum þar sem flóttamenn koma að landi og aðgangur að þeim verði lokaður öðrum en yfirvöldum.
„Það myndi þýða að fólk færi bara beint í þær búðir á meðan mál þeirra væri til meðferðar í kerfinu. Það kæmist því aldrei upp á meginlandið, því flestum er vísað úr landi. Það yrði bara fast þar til að það þyrfti síðan að fara.“
Aðspurður hvað honum hafi þótt erfiðast við dvölina á Grikklandi segir Benjamín að erfiðast sé að geta ekki gert neitt til að hjálpa flóttafólkinu að halda áfram með líf sitt.
„Það er erfitt að finna eitthvað að gera annað en bara hjálpa fólkinu þar sem er. Við erum í raun bara að hjálpa þeim að vera kyrr og það er það sem er erfiðast. Mér finnst mjög leiðinlegt að geta ekki gert neitt annað því við viljum hjálpa fólkinu að komast áfram en allt kerfið hér gerir það að verkum að lítið annað er hægt að gera en láta því líða betur um stund.“