Talið er að Anonymous hafi sett myndbandið á vefinn strax á föstudagskvöld. Hakkararnir eru þekktir fyrir að ráðast gegn umdeildum samtökum og einstaklingum en eftir skotárásina á skrifstofum franska skopbyndablaðsins Charlie Hebdo í janúar síðastliðnum hétu þeir því að ráðast gegn heimasíðum ISIS og al-Qaeda.
Í myndbandinu sem Anonymous birta nú kemur einn af hökkurunum fram með grímu og talar til ISIS-skæruliðanna á frönsku:
„Við munum finna ykkur og þið munuð ekki sleppa. Við munum fara í stærstu aðgerð okkar gegn ykkur. Búið ykkur undir umfangsmiklar tölvuárásir. Það hefur verið lýst yfir stíði. Undirbúið ykkur. Frakkar eru sterkari en þið og munu koma enn sterkari út úr þessum hörmungum.“
Í frétt á vef breska dagblaðsins Telegraph kemur fram að ekki sé víst hvers vegna myndbandið er ekki birt á Youtube-síðu Anonymous.
Eftir að hakkararnir fóru að ráðast gegn ISIS í kjölfar árásanna á Charlie Hebdo hafa þeir tekið niður 149 heimasíður sem tengjast hryðjuverkasamtökunum, afhjúpað yfir 100 þúsund Twitter-reikninga og tæplega 6000 áróðursmyndbönd.