Skoðun

Spurning um skynsemi

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Það eru ýmis jákvæð teikn á lofti í íslensku efnahagslífi, fyrst og fremst vegna aukinna umsvifa í ferðaþjónustu. Hins vegar er full ástæða til að sýna varúð og gæta þess að við missum ekki tökin á uppganginum.

Núverandi ríkisstjórn tók við ágætu búi af þeirri síðustu og þegar árin sjö frá hruni eru skoðuð í samhengi má sjá að hér hefur undraverður árangur náðst í ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Enn eru stór viðfangsefni fram undan, til dæmis hvernig bregðast skal við velgengni og vexti. Staðreyndin er sú að núverandi ríkisstjórn var snögg að forgangsraða í þágu hinna efnameiri. Það var gert með því að afnema auðlegðarskatt, lækka veiðigjöld, afnema orkuskatt. Síðan var ráðist í að lækka tekjuskatt í milliþrepi og nú er stefnt að því að fækka skattþrepum úr þremur í tvö. Á sama tíma var virðisaukaskattur hækkaður á mat og menningu.

Öll þessi skref miða að því að lækka skattbyrði á hina efnameiri en um leið var skattbyrðin heldur aukin á hina efnaminni. Og þetta er ein af orsökum þess að átök á vinnumarkaði hafa verið harðari nú á undanförnum misserum en mörg ár á undan. Almenningur í landinu sér að þróun efnahagsmála er í rétta átt en líka að aðgerðir stjórnvalda snúast ekki um að velgengnin dreifist með réttlátum hætti.

Almenningur í landinu sér líka ýmis dæmi þar sem útvaldir hópar njóta sérkjara. Nærtækt er að nefna sölu hlutabréfa í Símanum þar sem Arion-banki bauð þá hluti fáum útvöldum aðilum á sérkjörum, mun hagstæðari en bjóðast almenningi. Þetta er önnur ástæða þess að venjulegt fólk krefst kjarabóta og neitar að sitja uppi með svartapéturinn þegar öðrum eru afhent tromp á silfurfati.

Það ætti að vera forgangsmál íslenskra stjórnvalda að tryggja réttlátar leikreglur og gagnsæi í fjármálakerfinu, tryggja jöfnuð og rétta hlut hinna tekjulægri í öllum sínum aðgerðum. Þar erum við á rangri leið eins og sést á tölum um auðsöfnun hinna ríkustu, ríkasta eina prósentið á fjórðung alls auðs á Íslandi. Jöfnuður er ekki einungis réttlætismál, hann skapar líka aukna hagsæld eins og komið hefur fram í nýjum skýrslum OECD um tengsl hagsældar og jafnaðar. Þetta snýst ekki einungis um hugmyndafræði og réttlæti, heldur líka skynsemi.




Skoðun

Sjá meira


×