Fótbolti

Ísland aftur efst Norðurlandaþjóða á FIFA-listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson fagnar marki með landsliðinu.
Kolbeinn Sigþórsson fagnar marki með landsliðinu. Vísir/Ernir
Ísland er áfram í 23. sæti á nýjum styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins en nýr listi var gefinn út í morgun. Ísland hefur aldrei verið ofar.

Ísland vann frábæran útisigur á Hollandi síðan síðasti listi var gefinn út en náði líka "bara" markalausu jafntefli á móti Kasakstan á heimavelli sem á sinn þátt í því að íslenska liðið kemst ekki ofar.

Danir detta aftur á móti niður um sex sæti á listanum, úr 22. sæti niður í 28. sæti sem þýðir að Ísland á aftur besta knattspyrnulandslið Norðurlandanna. Svíar lækka sig líka um níu sæti og eru núna 22 sætum neðar en Ísland á listanum.

Norðmenn hækka sig um heil 35 sæti á listanum og er nú komnir upp í 34. sæti listans. Noregur var áður í 69. sæti.

Ísland hefur aldrei verið ofar á listanum en liðið var einnig í 23. sæti á júlí- og september-listanum. Liðið datt niður um eitt sæti á listanum sem var gefinn út í ágúst.

Argentínumenn sitja áfram í efsta sæti en Þjóðverjar komust upp fyrir Belga og í 2. sæti. Belgar eru í 3. sæti og Portúgalar fóru upp um tvö sæti og upp í 4. sæti.

Wales er komið upp í 8. sæti og hefur aldrei verið ofar en í næsta sæti fyrir ofan Gareth Bale og félaga eru núna Brasilíumenn.

Allur FIFA-listinn fyrir október 2015.



Staða Norðurlandaþjóðanna á nýjum FIFA-lista:

23. sæti Ísland

28. sæti Danmörk (niður um 6 sæti)

34. sæti Noregur (upp um 35 sæti)

45. sæti Svíþjóð (niður um 9 sæti)

64. sæti Finnland (upp um 28 sæti)

85. sæti Færeyjar (niður um 10 sæti)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×