Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er fyrir löngu orðið ein helsta táknmynd Íslands í ferðamannabæklingum en það hefur í aldarfjórðung verið nýtt til ferðamannasiglinga. Og nú hefur annað lón á sömu slóðum, Fjallsárlón, verið virkjað í þágu ferðamanna.

Aðstaðan við Fjallsárlón er hins vegar takmörkuð, eitt hjólhýsi fyrir starfsmenn, yfirbyggð kerra fyrir miðasölu, einn kamar og lítið bílastæði. En nú á að bæta úr, byggja þjónustuhús með veitingasal, leggja nýjan veg og stærra bílastæði.
„Við ætlum að klára þetta fyrir næsta sumar. Þá ætlum við að vera komnir með betri aðstöðu. Við ætlum áfram að láta umhverfið hérna á svæðinu vera í fyrsta sæti. Við verðum utan við jökulöldurnar,“ segir Steinþór.

Siglingar á Fjallsárlóni eru eingöngu yfir sumarmánuði, frá miðjum maímánuði og fram í miðjan september, en lónið frýs á veturna. Þeir hyggjast áfram notu sömu tegund báta enda segir Steinþór þá vera mjög ánægða með bátana og fólk jafnframt ánægt að sigla í litlum bátum.