Enski boltinn

Man Utd fær 29 milljónir punda og Navas fyrir De Gea

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
De Gea er á förum til Real Madrid.
De Gea er á förum til Real Madrid. vísir/getty
Real Madrid hefur náð samkomulagi við Manchester United um kaup á spænska markverðinum David de Gea.

Spænski blaðamaðurinn Guillem Balague greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni en hann þykir mjög áreiðanlegur þegar kemur að félagaskiptum á Spáni.

Samkvæmt Balague greiðir Real Madrid United 29 milljónir punda fyrir De Gea, auk þess sem markvörðurinn Keylor Navas verður hluti af félagaskiptunum.

Navas er 28 ára gamall og kemur frá Kosta Ríka. Hann sló í gegn hjá Levante og gekk svo til liðs við Real Madrid eftir HM 2014 þar sem hann lék mjög vel.

De Gea kom til United frá Atletico Madrid sumarið 2011 fyrir tæpar 18 milljónir punda. Hann hefur verið aðalmarkvörður liðsins í fjögur ár og hefur alls leikið 175 leiki fyrir rauðu djöflana.

De Gea hefur verið þrálátlega orðaður við Real Madrid í sumar og nú virðast félagaskiptin loks verða að veruleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×