Sport

YouTube-spjótkastarinn sem sló í gegn í Peking

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Yego grýtti spjótinu 92,72 metra.
Yego grýtti spjótinu 92,72 metra. vísir/getty
Julius Yego er ein af stjörnum HM í frjálsum íþróttum sem fer nú fram í Peking í Kína.

Þessi 26 ára Kenýumaður bar sigur úr býtum í spjótkastskeppninni en hann kastaði spjótinu 92,72 metra. Þetta er lengsta kast ársins og jafnframt lengsta kast í greininni í 14 ár.

Í gær skrifaði Ásdís Hjálmsdóttir, fulltrúi Íslands í spjótkastskeppni kvenna á HM, á Facebook-síðu sína að þetta tröllakast Yego hafi veitt henni innblástur. Ásdís keppir í spjótkastinu á morgun.

Yego, sem er aðeins 1,75 metrar á hæð, náði þessu ótrúlega kasti í þriðju tilraun en fyrir hana var hann í 8. sæti af 12 keppendum. Þetta tröllakast var tæpum fjórum metrum lengra en næstlengsta kastið sem Egyptinn Ihab El-Sayed átti.

„Ég glímdi við alvarleg meiðsli og hélt að ég myndi ekki geta keppt í Peking. Mjög fáir íþróttamenn hafa gert það sem ég hef gert,“ sagði Yego sem hafði lengst kastað 91,39 metra fyrir HM.

Yego starfaði áður sem lögreglumaður í heimalandinu.vísir/getty
Yego segist hafa verið duglegur að horfa á myndbönd af frægum spjótkösturum, eins og heimsmethafanum Jan Zelezný og Norðmanninum Andreas Thorkildsen, á YouTube til að þróa tækni sína.

„Það mun ekki koma annar YouTube-íþróttamaður fram á sjónarsviðið,“ sagði Yego sem var að vonum ánægður með kastið sitt.

„Mig langar að fara og horfa aftur á kastið mitt, það var nánast fullkomið.“

Yego, sem starfaði áður sem lögreglumaður, æfir undir handleiðslu Finnans Petteri Piironen og hefur bætt sig jafnt og þétt síðustu ár.

Yego lenti í 12. sæti á Ólympíuleikunum í London 2012 og ári seinna rétt missti hann af bronsverðlaunum á HM í Moskvu.

Í fyrra vann hann svo sigur í spjótkastskeppninni á Samveldisleikunum í Glasgow í Skotlandi þegar hann kastaði 83,87 metra.

Ári seinna er hann kominn á toppinn í greininni og það er spurning hvort hann geri atlögu að heimsmeti Zeleznýs (98,48 metrar) á næstu misserum.

Heimsmethafinn Jan Zelezný



Fleiri fréttir

Sjá meira


×