Fótbolti

Ísland missti Albaníu upp fyrir sig á FIFA-listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Ernir
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er í 24. sæti á nýjum styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, sem var birtur í morgun.

Þetta er annar besti árangur íslenska liðsins á FIFA-listanum en evrópsku landsliðin spiluðu enga landsleiki frá því að síðasti listi var gefin út.

Ísland fellur niður um eitt sæti á listanum en íslenska karlalandsliðið hefur aldrei verið ofar en á listanum var gefinn út í júlí síðastliðnum.

Ísland er áfram efsta Norðurlandaþjóðin á listanum, einu sæti á undan Dönum og þrettán sætum á undan Svíum.

Albanía tók risastökk á listanum og fór upp um fjórtán sæti og í sæti númer 22. Í næstu sætum á eftir Albönum eru síðan Frakkland og Ísland.

Aron Jóhannsson og félagar í bandaríska landsliðinu eru í 29. sæti eða fimm sætum neðar en Ísland.

Argentína er í efsta sæti listans og Belgar fóru upp fyrir heimsmeistara Þjóðverjar og í annað sætið.

England og Wales hækka sig um eitt sæti á listanum og eru nú í 8. sæti (England) og 9. sæti (Wales). Síle komst inn á topp tíu þökk sé sigrinum í Suður-Ameríkukeppninni.

Hollendingar duttu niður um sjö sæti og eru ekki lengur meðal tíu bestu þjóða heim. Holland er nú í 12. sætinu.

Hægt er nálgast allan FIFA-listann á heimasíðu sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×