Leiknismenn unnu í gær 1-0 sigur á Stjörnunni í 14. umferð Pepsi-deildar karla og Breiðhyltingar komust fyrir vikið upp úr fallsæti.
Miðvörðurinn Halldór Kristinn Halldórsson skoraði sigurmarkið fimmtán mínútum fyrir leikslok og tryggði Leikni þar með fyrsta sigur félagsins síðan í maí.
Þetta var jafnframt í fyrsta sinn frá árinu 2012 sem nýliðar vinna ríkjandi Íslandsmeistara en Íslandsmeistarar KR töpuðu það sumar fyrir báðum nýliðunum deildarinnar, ÍA og Selfoss.
Undanfarin tvö sumur höfðu meistarnir unnið 6 af 8 leikjum sínum gegn nýliðum og hinir tveir leikirnir hafa endað með jafntefli. Stjarnan hefur lokið leikjum sínum á móti nýliðunum í Pepsi-deildinni í sumar og Garðbæingar urðu að sætta sig við það að ná aðeins í fimm stig af tólf mögulegum.
Nýliðar hafa annars ekki unnið marga sigra á ríkjandi meisturum síðustu ár en Víkingar afrekuðu að vinna 6-2 stórsigur á Breiðabliki á útivelli haustið 2011 sem var þá fyrsti sigur nýliða á meisturum í sjö ár.
Á þessari öld hafa Íslandsmeistarar tapað níu sinnum fyrir nýliðum í titilvörn sinni en FH-liðið frá 2001 er eina liðið sem tókst að vinna báða leiki sína á móti ríkjandi Íslandsmeisturum á þessum tíma.
FH-ingar hafa ennfremur aldrei tapað sjálfir fyrir nýliðum í titilvörn en FH-liðið hefur unnið 18 leiki auk þess að gera 6 jafntefli í 24 leikjum sínum á móti nýliðum sumarið eftir að Íslandsmeistaratitilinn kom í Kaplakrika.
Leiknismenn fengu alls fjögur stig út úr leikjunum tveimur á móti Íslandsmeisturum Stjörnunnar í Pepsi-deildinni í sumar því liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum í Garðabænum.
Sigurleikir nýliða gegn ríkjandi Íslandsmeisturum á þessari öld:
2015
Leiknir: 1-0 sigur á Stjörnunni (heima)
2012
ÍA: 3-2 sigur á KR (heima)
Selfoss: 1-0 sigur á KR (heima)
2011
Víkingur R.: 6-2 sigur á Breiðablik (úti)
2004
Keflavík: 3-1 sigur á KR (heima)
2002
Þór Ak.: 1-0 sigur á ÍA (úti)
2001
FH: 2-0 sigur á KR (úti)
FH: 2-1 sigur á KR (heima)
Valur: 4-2 sigur á KR (heima)
