Fótbolti

Ís­land lenti í al­gjörum mar­traðarriðli

Sindri Sverrisson skrifar
Hlín Eiríksdóttir og Sandra María Jessen ætla sér á HM í Brasilíu. Nú er ljóst hverjum Ísland mætir í undankeppninni.
Hlín Eiríksdóttir og Sandra María Jessen ætla sér á HM í Brasilíu. Nú er ljóst hverjum Ísland mætir í undankeppninni. vísir/Anton

Ísland verður í riðli með heimsmeisturum Spánar og Evrópumeisturum Englands í undankeppni HM kvenna í fótbolta á næsta ári.

Það er því óhætt að segja að Ísland hafi fengið martraðarriðil en fjórða liðið í riðlinum er svo Úkraína.

Efsta lið riðilsins kemst beint á HM en hin þrjú liðin fara í tveggja umferða umspil þar sem alls 32 lið taka þátt. Varðandi það umspil er afar mikilvægt fyrir Ísland að ná að forðast neðsta sæti riðilsins. Neðar í greininni má lesa um hvernig umspilið virkar.

Riðlarnir í A-deild undankeppninnar. Ísland er í riðli þrjú.UEFA

Einnig hefur verið dregið í riðlana í B- og C-deild og má sjá þá hér að neðan. Elísabet Gunnarsdóttir stýrir Belgum sem féllu í síðasta mánuði niður í B-deild og eru þar í riðli með Skotlandi, Ísrael og Lúxemborg.

Riðlarnir í B-deild. Elísabet Gunnarsdóttir stýrir Belgum sem eru í riðli fjögur.UEFA

Svona eru riðlarnir í C-deild. Sigurliðin sex í riðlunum og tvö stigahæstu í 2. sæti komast áfram í HM-umspilið og mæta þar liðunum átta sem enda í 2. og 3. sæti riðlanna í A-deild.UEFA

Ísland mun spila sex leiki í sínum riðli og eru þetta leikdagarnir, með fyrirvara um minni háttar tilfærslur:

  • Leikdagur 1: Þriðjudagurinn 3. mars
  • Leikdagur 2: Laugardagurinn 7. mars
  • Leikdagur 3: Þriðjudagurinn 14. apríl
  • Leikdagur 4: Laugardagurinn 18. apríl
  • Leikdagur 5: Föstudagurinn 5. júní
  • Leikdagur 6: Þriðjudagurinn 9. júní

Leiðin á HM

Í undankeppninni komast liðin fjögur sem vinna sinn riðil í A-deild beint á HM. Það er eini möguleikinn til að komast beint á HM úr undankeppninni.

Öll hin liðin sem spila í A-deild komast í umspil, svo að Ísland er öruggt um að komast að minnsta kosti í umspil um sæti á HM.

Það fara reyndar mjög mörg lið í umspilið eða alls 32. Þar af eru 12 lið úr A-deild, 12 úr B-deild og 8 úr C-deild, en umspilið er klárlega „þægilegast“ fyrir lið sem enda í 2. og 3. sæti í A-deild því þau mæta þá ekki neinu af 12 bestu liðum Evrópu.

Hvernig virkar HM-umspilið?

HM-umspilið er nokkuð flókið og skiptist í tvo hluta og tvær umferðir, og eitt Evrópulið mun svo meira að segja þurfa að fara enn lengra eða í umspil með liðum úr öðrum heimsálfum.

Fyrri umferðin í umspili:

  • Leið eitt: Liðin átta í 2.-3. sæti riðlanna í A-deild spila við liðin sex sem vinna sinn riðil í C-deild og tvö sem ná bestum árangri í 2. sæti í C-deild.
  • Leið tvö: Liðin fjögur sem enda neðst í A-deild og liðin fjögur sem enda efst í B-deild spila við liðin átta sem enda í 2. og 3. sæti í B-deild.

Um verður að ræða einvígi þar sem hærra skráða liðið spilar seinni leikinn á heimavelli.

Seinni umferðin í umspili:

  • Sigurliðin úr leið eitt í fyrri umferð mæta sigurliðunum úr leið tvö.

Sigurliðin í seinni umferðinni komast svo á HM, fyrir utan eitt sem mun þurfa að halda áfram í umspil með liðum úr öðrum heimsálfum.

Evrópa mun þannig eiga 11 eða 12 lið á HM í Brasilíu.

Ísland hefur aldrei komist á HM en var grátlega nálægt því að komast á HM í Eyjaálfu 2023, þegar í fyrsta sinn voru 32 þjóðir með. Liðið var fyrst hársbreidd frá því að enda efst í sínum riðli en fékk á sig mark á þriðju mínútu uppbótartíma gegn Hollandi í Utrecht, og tapaði svo í framlengdum leik gegn Portúgal í umspili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×