Enski boltinn

United lækkar verðið á De Gea sem er búinn að kveðja liðsfélaga sína

Tómas Þór Þórðarson skrifar
David De Gea vill komast til Real Madrid.
David De Gea vill komast til Real Madrid. vísir/getty
Félagaskiptasaga spænska markvarðarins Davids De Gea heldur áfram, en hann vill ólmur komast frá Manchester United til Real Madrid.

Spænska íþróttablaðið AS slær því upp á forsíðu í morgun að United sé búið að lækka verðið á markverðinum niður í 35 milljónir evra.

United vildi upphaflega fá 46 milljónir evra fyrir De Gea en fyrsta tilboð Real Madrid hljóðaði upp á 30 milljónir. Félögin virðist því færast nær hvort öðru við samningaborðið.

Báðir aðilar eru sagðir í frétt AS vilja komast að samkomulagi eins fljótt og hægt er til að koma í veg fyrir að De Gea þurfi að mæta til æfinga aftur með Manchester United.

Louis van Gaal boðaði leikmannahópinn á fyrstu æfingu á mánudaginn kemur, en það gæti orðið nokkuð vandræðalegt fyrir De Gea að mæta þar sem hann er, að sögn AS, búinn að kveðja liðsfélaga sína og stóran hluta af starfsliði Manchester United.

Van Gaal er sagður vilja leysa þetta mál sem fyrst svo hann geti fundið sér nýjan aðalmarkvörð og helst áður en liðið fer í æfingaferð til Bandaríkjanna.

Hugo Lloris, markvörður Tottenham, er sagður líklegasti arftaki De Gea, en franska íþróttablaðið L'Equipe hefur greint frá því að Spurs sé tilbúið að láta hann fara fyrir 20 milljónir evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×