Íslenski boltinn

Þróttur enn með fullt hús stiga eftir sigur á KA

Viktor Jónsson er markahæstur í 1. deildinni með 7 mörk í 6 leikjum.
Viktor Jónsson er markahæstur í 1. deildinni með 7 mörk í 6 leikjum. vísir/stefán
Þróttarar eru enn með fullt hús stiga í 1. deild karla í fótbolta eftir gríðarlega mikilvægan sigur á KA á heimavelli, 2-1. Markið hjá KA er eingöngu annað markið sem Þróttur fær á sig í fyrstu 6 leikjum tímabilsins.

Viktor Jónsson er sjóðheitur þessa dagana en hann kom Þrótti á bragðið á 29. mínútu. Þetta var sjöunda mark hans í 1. deildinni í sumar en hann hefur skorað í öllum deilarleikjum Þróttar hingað til.

Staðan í hálfleik var 1-0 en á 51. mínútu kom Davíð Þór Ásbjörnsson Þrótti í 2-0. Davíð Rúnar Bjarnason minnkaði muninn fyrir KA í uppbótartíma en það var of seint og 2-1 sigur Þróttara staðreynd.

Þróttur í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga, 18 stig eftir 6 leiki og markatöluna 17:2. Magnaður árangur og verður að teljast líklegt að Þróttur spili í Pepsi-deild karla á næsta tímabili.

KA situr í 5. sæti deildarinnar eftir þennan leik með 11 stig og er nú 4 stigum á eftir nágrönnum sínum í Þór, sem verma 2. sætið. Næsti leikur KA er á heimavelli gegn BÍ/Bolungarvík á sunnudaginn eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×