Rúmlega þriðjungur, eða 37 prósent, telur aftur á móti að það hafi verið rétt að samþykkja lög á verkfallið. Ellefu prósent eru óákveðin í afstöðu sinni og 2 prósent svara ekki spurningunni. En þegar einungis eru skoðuð svör þeirra sem afstöðu tóku má sjá að 58 prósent telja að ekki hafi verið rétt að setja lög á verkfallið en 42 prósent telja að það hafi verið rétt.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir lögunum á Alþingi á föstudag. Þau voru samþykkt síðar um helgina. Í aðdraganda laganna hafði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, og aðrir stjórnendur lýst áhyggjum af öryggi sjúklinga. Fulltrúar þeirra starfsstétta sem verkfallsrétturinn var tekinn af hafa hins vegar lýst mikilli reiði.
Könnunin var gerð þannig að hringt var í 1.205 manns þar til náðist í 774 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 15. og 16. júní. Svarhlutfallið var 64,2 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembi- úrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.