Vladimir Pútín Rússlandsforseti segir Alexis Tsipras ekki hafa beðið rússnesk stjórnvöld um fjárhagsaðstoð á fundi þeirra í Moskvu í dag.
Vangaveltur voru uppi um hvort Tsipras myndi leita til Rússlandsstjórnar til að aðstoða Grikki en skuldastaða þeirra er mjög slæm.
Í frétt BBC kemur fram að Pútín hafi sagt að Rússar myndu íhuga að lána Grikkjum fé í skiptum fyrir samninga um sameiginleg verkefni ríkjanna, mögulega í orkuiðnaði.
Sérfræðingar telja þó að eigin efnahagsvandræði Rússa þýði að aðstoð þeirra yrði hvort eð er frekar takmörkuð.
Grikkir eiga í viðræðum við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um frekari lán, en opinberir sjóðir grískra stjórnvalda gætu tæmst innan örfárra vikna, náist ekki samningar um frekari lánagreiðslur.
Tsipras bað Rússa ekki um lánsfé
Atli Ísleifsson skrifar
