Vladimir Pútín Rússlandsforseti segir Alexis Tsipras ekki hafa beðið rússnesk stjórnvöld um fjárhagsaðstoð á fundi þeirra í Moskvu í dag.
Vangaveltur voru uppi um hvort Tsipras myndi leita til Rússlandsstjórnar til að aðstoða Grikki en skuldastaða þeirra er mjög slæm.
Í frétt BBC kemur fram að Pútín hafi sagt að Rússar myndu íhuga að lána Grikkjum fé í skiptum fyrir samninga um sameiginleg verkefni ríkjanna, mögulega í orkuiðnaði.
Sérfræðingar telja þó að eigin efnahagsvandræði Rússa þýði að aðstoð þeirra yrði hvort eð er frekar takmörkuð.
Grikkir eiga í viðræðum við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um frekari lán, en opinberir sjóðir grískra stjórnvalda gætu tæmst innan örfárra vikna, náist ekki samningar um frekari lánagreiðslur.

