Leiðtogar Evrópusambandsins segja að grísk stjórnvöld hafi samþykkt að skila inn nýrri áætlun um umbætur innan nokkurra daga til að fá frekari lán þannig að gríska ríkið geti forðast gjaldþrot.
Greint var frá þessu í kjölfar viðræðna Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, Angelu Merkel Þýskalandskanslara og annarra leiðtoga aðildarríkja ESB í Brussel.
Í frétt BBC kemur fram að Tsipras segist bjartsýnni nú en fyrir fundinn.
Á fundinum var einnig samþykkt að viðskiptahindranir sambandsins á hendur Rússum skuli áfram vera í gildi, að minnsta kosti út þetta ár.
