Fótbolti

Eiður Smári snýr aftur í landsliðið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári gengur af velli eftir leikinn í Zagreb í nóvember 2013.
Eiður Smári gengur af velli eftir leikinn í Zagreb í nóvember 2013. vísir/vilhelm
Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður landsliðsins í fótbolta frá upphafi, snýr aftur í íslenska liðið þegar það mætir Kasakstan í undankeppni EM 2016 28. mars.

Click here for an English version

Eiður Smári verður í hópnum sem Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfarar, kynna á föstudaginn, samkvæmt heimildum Vísis.

Búið er að sækja um vegabréfsáritun fyrir Eið Smára, samkvæmt heimildum Vísis, sem spilar sinn 79. landsleik komi hann við sögu í Astana.

Eiður Smári spilaði síðast fyrir Ísland á móti Króatíu í Zagreb í seinni leik umspilsins fyrir HM 2014. Eftir leik sagði hann í viðtali við RÚV að hann teldi líklegt að þetta hefði verið sinn síðasti landsleikur.

Þegar leikdagur rennur upp í Astana 28. mars verða því 494 dagar frá því að Eiður Smári, sem er 36 ára gamall, spilaði síðast landsleik fyrir Ísland.

Eiður Smári hefur gengið í endurnýjun lífdaga hjá sínu gamla félagi Bolton í ensku B-deildinni í vetur. Hann hefur komið frábærlega inn í liðið þar og spilað 17 leiki í deild og þrjá bikarleiki og skorað í heildina fjögur mörk.

Endurkoma Eiðs er góðs viti fyrir íslenska liðið sem er í ákveðinni framherjakrísu. Kolbeinn Sigþórsson hefur verið meiddur undanfarnar vikur, Alfreð Finnbogason spilar lítið með Real Sociedad á Spáni og þá er tímabilið ekki hafið í Noregi þar sem Jón Daði Böðvarsson spilar með Viking Stavanger.

Ísland er í öðru sæti síns riðils í undankeppni EM 2016 með níu stig eftir þrjá sigra og eitt tap gegn Tékklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×