Enski boltinn

Terry: Staðan er erfið fyrir Cech en hann er algjör fagmaður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
John Terry, fyrirliði Chelsea, viðurkennir að staðan hjá Petr Cech, varamarkverði Chelsea, sé erfið.

Þessi magnaði 32 ára gamli markvörður hefur ekkert gert nema standa sig frábærlega fyrir Chelsea í rúman áratug, en hann er nú kominn á bekkinn fyrir Thibaut Courtois.

Belgíski landsliðsmarkvörðurinn hefur heldur ekkert gert til að hleypa Cech aftur í markið, en hann átti enn einn stórleikinn í gær þegar Chelsea og PSG gerðu 1-1 jafntefli í Meistaradeildinni.

„Hann er í öðrum gæðaflokki en aðrir,“ sagði Terry um Courtois í gær sem varði meðal annars þrisvar sinnum frá Zlatan Ibrahimovic af stuttu færi í leiknum í París.

„Þetta er óheppilegt fyrir Petr því hann varði tvisvar sinnum stórkostlega frá Lukaku gegn Everton í síðustu viku og hefur tekið þessu eins og algjör fagmaður.“

„Ég hef séð marga leikmenn hérna á mínum tíma láta eins og börn í sömu stöðu en Petr er ekki eins og þeir. Hann hefur tekið þessu af fagmennsku sem er mikilvægt fyrir liðið.“

„Við erum með tvo bestu markverði heims að mínu mati og þeir eru að berjast um byrjunarliðssætið. Það er erfitt og ekki er hægt að hafa þá báða ánægða. Hvernig stjórinn fer að þessu skil ég ekki,“ segir John Terry.


Tengdar fréttir

Stuðningsmenn Chelsea hentu manni út úr lest í París

Stuðningsmenn Chelsea urðu sér og félagi sínu til skammar í gærkvöldi þegar þeir voru á ferð með lest í miðborg París en Chelsea gerði 1-1 jafntefli við Paris Saint-Germain í gærkvöldi í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Hazard sparkaður níu sinnum niður í gær | Mourinho ósáttur

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, gagnrýndi leikmenn franska liðsins Paris Saint-Germain fyrir meðferð þeirra á belgíska landsliðsmanninum Eden Hazard í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×