„Bara mjög vel núna erum við komnir í gírinn og ég hlakka mikið til að spila leikinn. Svona mót eru alltaf apasálfræði, maður þarf að hugsa um að næsti leikur sé sá mikilvægasti. Við þurfum að mæta í hann eins vel stemdir og í gær, þá vinnum við leikinn á morgun. Tékkarnir eru kannski ekkert ósvipaðir Frökkunum, stórir og þungir og spila frekar hægan sóknarleik og flatar varnir. Ég held að þetta snúist um að við séum vel stemdir og að hausinn á okkur sé rétt skrúfaður á“.
Landsliðsmennirnir voru nokkuð þreytulegir í morgun enda erfiður leikur að baki og þar sem leikurinn byrjaði kl. 21 að staðartíma voru þeir ekki komnir í rúmið fyrr en seint í gærkvöldi.
„Maður er orðin svolítið þreyttur enda leikurinn spilaður seint og við vorum svolítið lúnir í morgun en ætlum að fara að leggja okkur aftur. Þetta er mjög lýjandi, það er spilað svo seint. Það hjálpar okkur að það er spilað annan hvern dag sem reyndar hjálpar okkur mikið en nú finnur maður fyrir langtímaþreytu“.
En nú ert þú kornungur, hvað þá með „gömlu“ mennina í liðinu, hvernig líður þeim?
„Ég veit ekki hvernig þeir fara að þessu. Þeir eru sprækir og stóðu sig vel þannig að ég hef engar áhyggjur af þeim. Á morgun snýst þetta um að byrja leikinn vel og ekki gefa Tékkunum neina von, mæta og reyna að kaffæra þá strax í byrjun. Þá eru góðar líkur á því að þeir sjá að þetta er ekki að fara að ganga upp hjá þeim“.
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.