Tónlist

Baldur og Konni fá eigið lag

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jakob Frímann Magnússon Stuðmaður er hér ásamt góðum vini, brúðunni Konna, sem býr á Þjóðminjasafninu.
Jakob Frímann Magnússon Stuðmaður er hér ásamt góðum vini, brúðunni Konna, sem býr á Þjóðminjasafninu.
„Jú, það er rétt,“ segir Stuðmaðurinn síkáti, Jakob Frímann Magnússon, spurður út í hvort nýtt lag sé væntanlegt frá Stuðmönnum. Hljómsveitin vinnur nú hörðum höndum í hljóðveri við smíði nýs lags.

„Lagið er tileinkað lífseigustu skemmtikröftum Tívolígarðsins, dúettinum sem átti íslenska skemmtanabransann um árabil, þeim Baldri og Konna,“ segir Jakob Frímann. Lagið ber einfaldlega titilinn Baldur og Konni, í höfuðið á búktalaranum Baldri Georgssyni og brúðunni Konna.

„Baldur Georgs var íslenskur Tékki, en þó líklega óútfylltur því það virtist nóg til í hans andans ranni. Hann var frábærlega hæfileikaríkur og skemmtilegur. Þeir Konni skemmtu í þrettán ár samfellt í Tívolígarðinum og sá ég þessar hetjur þar og í Vesturveri,“ segir Jakob Frímann. Hann á einnig sína sögu sem búktalari.

„Nítján vetra flutti ég til Bretlands og nam þar meðal annars búktal hjá innfæddum búktalara og eignaðist mína eigin brúðu.“ Jakob kom fram með hana nokkrum sinnum á tónleikaferðalagi Stuðmanna, Sumar á Sýrlandi, en því miður var brúðunni stolið á Selfossi. „Þetta var eini dúkkuleikurinn sem ég tók þátt í,“ segir Jakob sem auglýsir jafnframt eftir fleiri búktölurum hér á landi. „Ef búktalari gefur sig ekki fram, þá þarf ég að feta þessa braut á nýjan leik.“

Stuðmenn eru einnig á leið í myndabandagerð við lagið. „Þetta er myndbandagerð til að endurreisa orðstír Baldurs og Konna, sem er löngu tímabært.“ 

Lagasmíðin og myndabandagerðin tengist tónleikunum Stuðmanna sem fram fara í Hörpu þann 6. september en uppselt er á tónleikana. Það verða þó haldnir aukatónleikar og hefst miðasala á þá þann 12. ágúst. Hin goðsagnakennda hljómplata, Tívolí-platan myndar grunninn á þessum tónleikum. 

„Efni plötunnar er endurútsett, búið að breyta og bæta. Við flytjum svo einnig þessa stærstu og helstu smelli sveitarinnar.“ bætir Jakob við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×