Erlent

"Allt í lagi, góða nótt"

Freyr Bjarnason skrifar
Hishammuddin Hussein, varnarmálaráðherra Malasíu, á blaðamannafundi.
Hishammuddin Hussein, varnarmálaráðherra Malasíu, á blaðamannafundi. Nordicphotos/AFP
Síðustu samskiptin á milli flugmanna malasísku farþegaflugvélarinnar sem hvarf á laugardag og flugumferðarstjórnar voru á þá leið að allt væri í himnalagi.

Aðeins nokkrum mínútum áður en vélin hvarf yfir Suður-Kínahafi sagði flugmaður vélarinnar: „Allt í lagi, góða nótt,“ samkvæmt upplýsingum frá malasískum yfirvöldum. Síðan þá hefur mikil leit staðið yfir að vélinni en án árangurs. 239 manneskjur voru um borð.

Varnarmálaráðherra Malasíu segir yfirvöld í landinu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að finna flugvélina „Við munum ekki gefast upp. Fjölskyldurnar eiga ekkert minna skilið frá okkur,“ sagði hann. Alls hafa 43 skip og 39 flugvélar frá að minnsta kosti átta þjóðum tekið þátt í leitinni.

Á þriðjudag greindu yfirvöld frá því að ratsjá hefði greint merki sem hugsanlega kom frá flugvélinni. Samkvæmt því hafði hún breytt um stefnu og flogið yfir Malaccasundi, um 400 km frá þeim stað sem síðast heyrðist frá henni. Yfirvöld bíða staðfestingar á að þetta hafi verið Boeing 777-vélin og þangað til mun leitin að henni halda áfram á mjög stóru svæði í Malasíu og nágrenni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×