Það fer þó ekki þannig að systurnar mætist í leiknum á laugardaginn því Berglind er nýkomin úr aðgerð á hné og missir af bikarúrslitaleiknum.
„Þetta er sama gamla góða hnéð,“ segir Berglind sem var að fara í sína þriðju aðgerð á hægra hnénu. „Ég er samt í liðinu þó að ég sé bara vatnsberi en við munum ekki berja hvor á annarri inni á vellinum eins og maður hefði viljað,“ segir Berglind en þær hafa aldrei gefið neitt eftir þegar þær hafa mæst á körfuboltavellinum.
Berglind missti af fyrri hluta tímabilsins þar sem hún var að ná sér af axlaraðgerð eftir að hafa hrokkið ítrekað úr lið síðasta vetur. Það er hins vegar eins og óheppnin elti hana því hún meiddist á hné í einum af fyrstu leikjunum eftir að hún kom til baka. Hún tekur öllum meiðslunum með jafnaðargeði enda orðin vön því að horfa á liðið sitt frá hliðarlínunni.

Berglind er á því að þetta verði ekki eins erfitt fyrir mömmu og pabba og margir halda. „Ég held að þetta verði auðveldasti leikurinn sem þau horfa á í vetur vegna þess að þau verða alltaf í sigurliðinu hvort sem það verður Snæfell eða Haukar sem vinnur. Ég held að fjölskyldan sé eitthvað að sauma búninga með Snæfellsmerkinu öðrum megin og Haukamerkinu hinum megin til að styðja bæði liðin. Ætli það verði samt ekki bara systkinin sem mæta í þeim,“ segir Berglind en faðir hennar, Gunnar Svanlaugsson, er formaður Körfuknattleiksdeildar Snæfells.