Skoðun

Sækjum fram í sameiningu

Margrét Kristmannsdóttir skrifar
Íslenskur landbúnaður framleiðir mikið af gæðavöru sem á fullt erindi á aðra markaði. Nægir þar að nefna skyrið og lambakjötið – afurðir sem eru þekktar fyrir hollustu og gæði.

Bændur í öðrum löndum, ekki síst í ýmsum löndum Evrópu, framleiða ekki síður gæðavörur sem eftirsóttar eru annars staðar en á þeirra heimamarkaði. Vörur sem bændur í öðrum löndum geta oft ekki framleitt.

Nú hafa um hríð staðið yfir tvíhliða viðræður við Evrópusambandið um aukinn markaðsaðgang fyrir íslenskar landbúnaðarvörur inn á Evrópumarkað. Erfitt er að átta sig á því hvar þær viðræður standa, en íslensk stjórnvöld vonast til að þeim ljúki á næstu mánuðum.

Eins og aðrar sambærilegar viðræður ganga þær út á gagnkvæm viðskipti, þ.e. að í staðinn fyrir aukinn markaðsaðgang fyrir íslenskar landbúnaðarvörur inn á Evrópumarkað verði opnað fyrir aukinn aðgang evrópskra landbúnaðarvara til Íslands. Flestir hljóta að sjá sanngirnina í því.

Allir vinna

Ekki verður betur séð en að hér sé um að ræða mál sem íslenskur landbúnaður og íslensk verslun eigi að beita sér fyrir í sameiningu og með miklum þunga. Greinilegt er að neytendur eru víða sólgnir í íslenska skyrið og það ætti því að vera sameiginlegt kappsmál að gefa sem flestum neytendum í Evrópu kost á að njóta þess. Á sama hátt er augljóst að íslenskir neytendur eru sólgnir í ýmiskonar erlendar landbúnaðarafurðir, sem ekki er möguleiki á að framleiða hér á landi. Hér er því eftirspurn á báða bóga sem á að bregðast við.

Þeir sem hræðast breytingar hafa iðulega teflt íslenskum landbúnaði og íslenskri verslun fram sem andstæðingum, sem er af og frá. Því þó verslunin vilji, eins og fleiri, sjá breytingar á núverandi landbúnaðarkerfi vill hún hag hefðbundins landbúnaðar sem mestan.

Sameiginlegt hagsmunamál okkar er að auka tollkvóta í báðar áttir og hér á landbúnaðurinn og verslunin að sækja fram í sameiningu og þrýsta á stjórnvöld. Ef rétt er á málum haldið er langlíklegast að niðurstaðan verði hagfelld fyrir landbúnaðinn, verslunina en ekki síst íslenska neytendur.

Svo maður sletti – en þó ekki skyrinu, „win- win“ fyrir alla aðila.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×