Skoðun

Skammtað úr krepptum hnefa

Líf Magneudóttir skrifar
Skólastarf í leik-, grunn- og framhaldsskólum hefur þurft að þola óvæginn niðurskurð eftir hrun og fyrir hrun kröfðu stjórnvöld skólasamfélagið um aðhald og sparnað í rekstri. Það er því ekki hægt að segja að skólar hafi verið ofaldir af því fjármagni sem þeim var úthlutað í „góðærinu“. Störf kennara verða sífellt flóknari og á þá bætast sífellt fleiri skyldur. Hávær krafa er um árangur og framfarir í skólastarfi en stjórnvöld halda alltaf fastar og fastar um pyngjuna.

Tvö nýleg dæmi benda til þess að stjórnvöld hafi, og hafi lengi haft, rangar áherslur í menntamálum. Um daginn lýsti menntamálaráðherra því yfir að hann vildi hækka laun framhaldsskólakennara. Í fyrstu fagnaði ég, því það er löngu orðið tímabært. En svo runnu á mig tvær grímur. Til þess að hækka laun þeirra ætlar hann að fækka þeim.

Annað dæmið eru leikskólasameiningar í Reykjavík. Þá fækkaði meirihluti Samfylkingar og Besta flokks störfum leikskólastjóra í Reykjavík með því að sameina leikskóla. Störf leikskólakennara og -stjórnenda eru síður en svo hálaunastörf og með aðgerðunum sendi meirihlutinn köld skilaboð til einnar mikilvægustu starfstéttar samfélagsins. Þessi afstaða stjórnvalda felur bæði í sér skammsýni og virðingarleysi við fræðslu- og umönnunarstörf.

Starf kennarans er margþætt. Fyrir utan að miðla þekkingu og fræðslu taka kennarar líka þátt í að móta og styrkja félagsþroska, færni og velferð nemenda sinna. Kennsla er mannlegt fag og árangurinn oft illmælanlegur. Það dylst hins vegar engum, sem vill vita, að störf kennara eru ein mikilvægasta atvinnugrein samfélagsins, sú arðbærasta og sú sem skilar hvað mestri velferð til lengri tíma litið, ef vel er að henni staðið. Með því að fjárfesta í samfélagi velsældar og framfara, þar sem börn fá athygli og menntun við hæfi, þurfum við að lyfta kennarastarfinu upp og veita kennurum faglegt frelsi. Við þurfum því fleiri menntaða kennara á betri launum. Hvenær ætla stjórnvöld að átta sig á því?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×