Kuhn er 28 ára varnarmaður sem skoraði fyrir lið sitt, New York Giants, í leik gegn Tennessee Titans í gærkvöldi. Giants vann stórsigur, 36-7.
Kuhn var fljótur að átta sig eftir að Zach Mettenberger, leikstjórnandi Titans, missti boltann þegar hann ætlaði að kasta honum frá sér. Kuhn hirti boltann og skoraði sitt fyrsta snertimark á ferlinum.
„Ég náði í boltann og hugsaði bara „vá - ég verð að hlaupa“. Þetta var fyrsta snertimarkið mitt í Bandaríkjunum - ég skoraði aldrei í háskóla,“ sagði Kuhn.
Kuhn var fjórtán ára þegar hann mætti á sína fyrstu ruðningsæfingu í Þýskalandi. Hann byrjaði að spila með Weinheim Longhorns í þýsku deildinni þar sem hann vakti eftirtekt háskólaliða í Bandaríkjunum.
Hann hélt svo vestur um haf árið 2007 og spilaði í fögur ár með North Carolina State, áður en hann var valinn af Giants í nýliðavalinu árið 2012.
Nokkrir erlendir leikmenn spila í NFL-deildinni og í gegnum tíðina hafa nokkrir Þjóðverjar komist í lið - flestir sparkarar eða varnarmenn og fengu því sjaldnast tækifæri til að skora snertimark líkt og Kuhn gerði um helgina.
Always dreamed of doing that one day! #unbelievable #giants #touchdown http://t.co/tW80lfCc38
— Markus Kuhn (@themarkuskuhn) December 8, 2014